Anders Olsen, blaðamaður hjá Ekstrabladet í Danmörku, hraunaði hressilega yfir landsliðsmarkvörðinn Kasper Schmeichel í grein á vef miðilsins í gær.
Danmörk tapaði fyrir Portúgal, 5:2, í seinni leik liðanna í Þjóðadeild karla í fótbolta á sunnudaginn var. Olsen var allt annað en sáttur við frammistöðu markvarðarins í leiknum.
„Við þurfum að halda niður í okkur andanum í hvert skipti sem hann fær boltann því hann tekur sér svo langan tíma til að koma honum í leik. Svo fer hann á taugum þegar einhver pressar.
Hann er orðinn 38 ára og er líka of feitur. Það er vesen að vera of gamall og of feitur. Emil Nielsen (markvörður handboltalandsliðsins) er sá eini sem má vera of feitur. Kannski væri Schmeichel betri í marki í handbolta þar sem hann þarf ekki að grípa boltann eða gefa með löppunum.
Schmeichel hefur verið glæsilegur með landsliðinu en hann er alls ekki nógu góður núna. Hann var lélegur hjá Nice, entist stutt í Belgíu og er núna í skosku deildinni sem er lélegri en sú danska. Vonandi var þetta síðasti mikilvægi landsleikurinn sem Schmeichel spilar,“ skrifaði hann m.a.