Arsenal tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu með því að leggja Real Madríd að velli, 3:0, í síðari leik liðanna á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í kvöld.
Arsenal fullkomnaði þar með endurkomuna þar sem Real Madríd vann fyrri leikinn á Spáni 2:0 og Skytturnar unnu einvígið samanlagt 3:2.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom fyrsta markið strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Alessia Russo skoraði. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Mariona Caldentey annað markið og var staðan þá orðin jöfn í einvíginu.
Eftir tæplega klukkutíma leik bætti Russo við öðru marki sínu og þriðja marki Arsenal og tryggði heimakonum frækinn sigur.
Russo virtist raunar vera að fullkomna þrennuna á 71. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu eftir athugun í VAR.