Fjórir leikmenn Real í vandræðum?

Kylian Mbappé gæti verið á leiðinni í bann.
Kylian Mbappé gæti verið á leiðinni í bann. AFP/Jose Jordan

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hóf í dag rannsókn á hegðun fjögurra leikmanna spænska stórliðsins Real Madrid eftir að liðið sló granna sína í Atlético Madrid úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrr í mánuðinum.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Antonio Rüdiger, Kylian Mbappé, Dani Ceballos og Vinicius Júnior.

Eru þeir allir sakaðir um óviðeigandi hegðun í leikslok er þeir fögnuðu sigri í einvíginu en Real stóð uppi sem sigurvegari eftir vítakeppni í seinni leiknum, sem var spilaður á heimavelli Atlético.

The Athletic greinir frá að leikmennirnir hafi ögrað stuðningsmönnum Atlético í leikslok og sýnt dónalega hegðun. Þeir gætu átt yfir höfði sér bann fyrir hegðunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert