Mexíkóski knattspyrnumaðurinn Rodrigo Huescas, leikmaður FC Kaupmannahafnar í Danmörku, gæti átt yfir höfði sér 20 daga fangelsisvist fyrir umferðarlagabrot.
Félagið greindi frá á heimasíðu sinni í dag. Huescas var tekinn á 111 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar á klukkustund.
Hann missti bílprófið og hefur verið kærður fyrir ofsaakstur, sem gæti haft í för með sér stutta fangelsisvist.
Huescas kom til FC Kaupmannahafnar í sumar frá Cruz Azul í heimalandinu en leikmaðurinn er 21 árs.