Kristianstad tók á móti Hacken í efstu deild kvenna í sænska fótboltanum í dag og vann sterkan tveggja marka sigur, 2:0.
Alexandra Jóhannsdóttir skoraði annað mark Kristianstad í dag á 41. mínútu eftir stoðsendingu frá Guðnýju Árnadóttur. Var þetta fyrsta mark Alexöndru fyrir félagið eftir að hún kom frá Fiorentina fyrir tímabilið. Áður hafði Beata Olsson komið Kristianstad yfir á 8. mínútu.
Alexandra og Guðný spiluðu báðar allan leikinn en Katla Tryggvadóttir var ekki í leikmannahóp Kristianstad í dag. Þá var Fanney Inga Birkisdóttir allan leikinn á varamannabekk Hacken.
Eftir leikinn er Kristianstad í 6. sæti deildarinnar með þrjú stig eftir tvo leiki en Hacken er í 12. sæti án stiga.