Dorival Júnior hefur verið rekinn úr starfi landsliðsþjálfara brasilíska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann fékk sparkið eftir að Brasilía var niðurlægt af Argentínu á dögunum í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM 2026.
Brasilíska liðið sá ekki til sólar gegn Argentínu og tapaði sannfærandi, 4:1. Liðið er þó í góðri stöðu í undankeppninni fyrir HM 2026, með 21 stig eftir 14 umferðir og situr í fjórða sæti riðilsins.
Dorival stýrði landsliðinu í 16 leikjum frá því hann tók við sem þjálfari þess í janúar 2024. Liðið vann sjö sigra, gerði sjö jafntefli og tapaði tveimur leikjum undir hans stjórn.
Dorival er 62 ára gamall og hefur þjálfað víða í heimalandinu. Hann hefur unnið titla með Flamengo, Sao Paulo, Vasco da Gama, Athletico Paranaense og fleiri félagsliðum í Brasilíu.
Brasilískir fjölmiðlar telja Jorge Jesus, þjálfara Al-Hilal, líklegastan til að taka við liðinu en þá hefur Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, oft verið nefndur á nafn þegar talað er um þjálfara Brasilíu. Ancelotti segist sjálfur vera ánægður hjá Real Madrid og ekki hafa nein áform um að yfirgefa félagið.