Crystal Palace vann afar sannfærandi útisigur á nágrönnum sínum í Fulham í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta í dag, 3:0.
Leikurinn fór fjörlega af stað og virtist stefna í jafnan og spennandi leik en eftir að Eberechi Eze skoraði fyrsta mark gestanna á 34. mínútu var ljóst að brekkan var brött fyrir Fulham.
Aðeins fjórum mínútum síðar lagði Eze upp mark fyrir Ismaila Sarr og gestirnir búnir að tvöfalda forystu sína.
Það var síðan Eddie Nketiah sem kórónaði frábæran leik hjá Crystal Palace þegar hann skoraði þriðja mark liðsins á 75. mínútu.
Með sigrinum tryggði Crystal Palace sig í undanúrslit ensku bikarkeppninnar. Seinna í dag mætast Brighton og Nottingham Forest og átta liða úrslitin klárast svo á morgun með leikjum Preston og Aston Villa sem og leik Bournemouth og Manchester City.