Norska knattspyrnufélagið Bryne hefur vakið athygli fyrir verðlaunin sem leikmanninum sem er kjörinn maður leiksins eftir leiki karlaliðsins er veitt.
Jan de Boer, hollenskur markvörður Bryne, fékk að launum fjórar tylftir eggja eftir góða frammistöðu sína í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar um helgina, þar sem nýliðarnir töpuðu 1:0 fyrir Noregsmeisturum Bodö/Glimt.
Hann var kjörinn maður leiksins eftir að hafa varið eins og berserkur, en de Boer hélt Bryne í leiknum með góðum markvörslum, þar á meðal varði hann vítaspyrnu.
Bryne hefur það fyrir sið að veita verðlaun sem tengjast landbúnaði enda mikilvægur svæðinu. Syngja stuðningsmenn liðsins á heimaleikjum til að mynda að þeir séu bændur og stoltir af því.
Í næsta heimaleik fær sá sem verður kjörinn maður leiksins mjólk að launum að því er kemur fram í tilkynningu frá Bryne.