Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé var á skotskónum fyrir Real Madrid í sigri liðsins gegn Leganes í 29. umferð spænsku 1. deildarinnar í Madrid á laugardaginn.
Leiknum lauk með naumum sigri Real Madrid, 3:2, en Mbappé skoraði tvívegis í leiknum og hefur nú skorað 33 mörk í öllum keppnum fyrir félagið á sínu fyrsta tímabili á Spáni.
Hann hefur jafnað markafjölda Cristianos Ronaldos á sínu fyrsta tímabili í spænsku höfuðborginni en Ronaldo gekk til liðs við Real Madrid frá Manchester United, sumarið 2009.
Ronaldo skoraði þá 33 mörk í spænsku 1. deildinni og Meistaradeildinni en alls urðu mörkin 26 í 29 leikjum í deildinni.
Það er ennþá nóg eftir af tímabilinu og því ansi líklegt að Mbappé bæti markafjölda Ronaldos umtalsvert í lokaleikjunum.