Vill að stuðningsmenn safni fyrir Antony

Antony á fullri ferð í nágrannaslag með Real Betis gegn …
Antony á fullri ferð í nágrannaslag með Real Betis gegn Sevilla. AFP/Cristina Quicler

Spænski knattspyrnumaðurinn Isco vill að félag sitt, Real Betis, efni til samskota hjá stuðningsfólki félagsins svo það geti samið um áframhaldandi lán á brasilíska kantmanninum Antony fyrir næsta tímabil.

Antony átti erfitt uppdráttar hjá Manchester United, sérstaklega eftir að Ruben Amorim kom þangað sem knattspyrnustjóri í nóvember, og var lánaður til Real Betis á Spáni í janúar.

Þar hefur Brasilíumaðurinn heldur betur komist á flug og verið í lykilhlutverki hjá liðinu en hann hefur gert fjögur mörk í fyrstu tólf leikjunum og lagt upp önnur  fjögur. Fram að því hafði Antony skorað eitt mark fyrir United á tímabilinu, úr vítaspyrnu í deildabikarleik gegn C-deildarliðinu Barnsley.

„Við verðum að fara í eina af þessum samskotaherferðum meðal stuðningsmanna til að reyna að tryggja okkur hann í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar," sagði Isco í viðtali við DAZN.

„Antony hefur komið okkur öllum á óvart með auðmýkt sinni, gæðum og viljanum til að hjálpa okkur við að ná árangri. Við höfum séð umtalsverða breytingu á liðinu síðan hann kom," sagði Isco.

Real Betis er í sjötta sæti spænsku 1. deildarinnar og á möguleika á að blanda sér í baráttuna um Meistaradeildarsæti á lokaspretti tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert