Sá rautt fyrir að lyfta báðum löngutöngum

Sigfríður Clementsen með skýr skilaboð til dómarans og fær að …
Sigfríður Clementsen með skýr skilaboð til dómarans og fær að launum beint rautt spjald. Ljósmynd/@footy_nordic

Sigfríður Clementsen, þjálfari karlaliðs EB Streymur í færeysku Betri deildinni í knattspyrnu, fékk að líta rauða spjaldið á meðan leik liðsins gegn KÍ Klaksvík stóð í fyrstu umferð deildarinnar á sunnudag.

KÍ Klaksvík vann leikinn 2:1 og virtist Sigfríði eitthvað niðri fyrir í lok leiks þegar Meinhard Geyti, leikmaður EB Streymur, fékk beint rautt spjald.

Mótmælti þjálfarinn og lyfti ekki einungis löngutöng annarrar handar heldur einnig hinnar í átt að dómaranum og fékk þá sjálfur beint rautt spjald fyrir vikið.

Ljósmynd af atvikinu má sjá hér að ofan og fyrir neðan en Sigfríður má vænta þess að eiga von á leikbanni og/eða sekt vegna framferðis síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert