C-deildar lið Arminia Bielefeld gerði sér lítið fyrir og sló ríkjandi bikarmeistara Bayer Leverkusen úr leik í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í gærkvöldi. Arminia vann leikinn 2:1.
Arminia er í fjórða sæti C-deildar á meðan Leverkusen, sem er einnig ríkjandi Þýskalandsmeistari, er í öðru sæti efstu deildarinnar.
Í gærkvöldi var það Jonathan Tah sem kom gestunum frá Leverkusen yfir eftir 17 mínútna leik.
Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Marius Wörl hins vegar metin fyrir heimamenn í Bielefeld. Maximilian Grosser tryggði liðinu svo sigurinn skömmu fyrir leikhlé.
Arminia mætir annað hvort RB Leipzig eða Stuttgart í bikarúrslitaleiknum en þau mætast í Stuttgart í kvöld.