Tyrkneska knattspyrnufélagið Fenerbahce gagnrýnir Okan Buruk, knattspyrnustjóra erkifjendanna í Galatasaray, harðlega eftir viðskipti hans við José Mourinho eftir bikarleik liðanna í vikunni.
Buruk og Mourinho sinnaðist eftir leikinn, sem Galatasaray vann 2:1. Mourinho, knattspyrnustjóri Fenerbahce, greip um nef Buruk sem féll í grasið. Í yfirlýsingu ásakaði Galatasaray Mourinho um líkamsárás.
„Hann vogaði sér að veifa höndunum með vanvirðandi hætti til að egna Mourinho, sem brást við með því að snerta nef hans lítillega. Þessi ögrun var með ráðum gerð og sem hluti af þessari ráðagerð lét hann eins og hann hefði verið skotinn og féll í jörðina eins og hann hafi aldrei gert annað.
Orð hans og gjörðir sem mörkuðust af vanvirðingu eru sjáanlegar á myndbandi. Fáránleiki þess þegar einhver sem er lítillega snertur á nefið fleygir sér rakleitt í jörðina og hristist í nokkrar sekúndur er augljós almenningi.
Það er ljóst að tilhneiging þessa einstaklings til þess að henda sér í jörðina, sem sást gjarna þegar hann spilaði, heldur áfram á þjálfaraferlinum sem sýnir að þessi hegðun er hluti af hans karakter,“ sagði í yfirlýsingunni.
Buruk gerði sjálfur lítið úr atvikinu á fréttamannafundi eftir leikinn.