Enski knattspyrnumaðurinn Bukayo Saka, kantmaður Arsenal, segir þriggja mánaða fjarveru sína frá keppni vegna meiðsla hafa gert sér gott andlega.
Saka sneri nýverið aftur á völlinn eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð vegna rifins vöðva aftan í læri.
„Ég held að meiðslin hafi gert mér gott andlega. Þetta var vitanlega erfitt í upphafi þegar ég fékk að vita hversu alvarlega meiðslin voru og að ég þyrfti á aðgerð að halda.
En þegar henni var lokið og það var ljóst að hún gekk vel var ég einungis að einbeita mér að því að koma sterkari til baka. Undanfarin fimm ár hef ég spilað hvern leikinn á fætur öðrum. Því var þetta fyrsta almennilega fríið sem ég hef fengið.
Það reyndist mér mjög gott. Ég náði að gera margt sem ég get ekki gert venjulega. Það er mjög indælt að vera kominn til baka og ég er ferskur andlega,“ sagði Saka á fréttamannafundi í dag.
Arsenal fær Real Madríd í heimsókn í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.