Frábært gengi brasilíska knattspyrnumannsins Raphinha á tímabilinu hélt áfram í kvöld þegar hann skoraði eitt mark og lagði upp tvö fyrir Barcelona í 4:0-sigri á Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu.
Með því að koma að þremur mörkum með beinum hætti í kvöld tókst Raphinha að jafna við Lionel Messi, sem skoraði eða lagði upp alls 19 mörk fyrir Barcelona í Meistaradeildinni tímabilið 2011-12.
Raphinha er búinn að skora tólf mörk og leggja upp sjö mörk og er þar með orðinn jafn Messi yfir flest mörk eða stoðsendingar hjá liðinu á einu tímabili í keppninni.
Brasilíumaðurinn á hins vegar að öllum líkindum eftir að spila að minnsta kosti þrjá leiki til viðbótar í Meistaradeildinni: síðari leikinn gegn Dortmund í næstu viku og tvo leiki í undanúrslitum. Mun Raphinha því eflaust fá tækifæri til þess að slá met Messis.