Tveir unglingar létust eftir átök stuðningsmanna og lögreglu fyrir leik Colo Colo frá Síle og Fortaleza frá Brasilíu í Meistaradeild Suður-Ameríku í Síle í nótt.
Unglingarnir létust eftir að girðing kramdi þá í kjölfar slagsmála þegar lögregla hindraði um 100 aðdáendur sem reyndu að komast inn á Monumental-leikvanginn í Santiago, höfuðborg Síle.
Samkvæmt staðarfjölmiðlum voru unglingarnir 13 og 18 ára.
Leikurinn var spilaður til að byrja með en honum var síðan frestað. Knattspyrnusamband Suður-Ameríku, Conmbebol, sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið.
„Við hörmum innilega dauða tveggja aðdáenda nálægt Monumental-leikvanginum. Við sendum innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu þeirra og ástvina.
Allar upplýsingar um atburðina sem áttu sér stað innan- sem utanvallar verða sendar til aganefndar þess,“ stóð í yfirlýsingunni.