Jonathan Klinsmann varði vítaspyrnu í leik með liði sínu Cesena þegar það vann Salernitana 2:0 í ítölsku B-deildinni í síðasta mánuði.
Hvernig hann fór að því vakti mikla athygli þar sem tólf ára boltastrákur gerði gæfumuninn.
Í stöðunni 0:0 fékk Salernitana vítaspyrnu seint í leiknum. Klinsmann leitaði til Ivans, boltastráks á leiknum og spurði í hvort hornið hann ætti að skutla sér.
Ivan sagði Klinsmann, sem er sonur þýsku goðsagnarinnar Jürgen Klinsmann, að skutla sér til hægri sem hann og gerði varði vítaspyrnuna.
Cesena skoraði svo tvö mörk undir lokin, tryggði sér sigur og Klinsmann gaf Ivan treyjuna sína eftir leikinn.