Júlíus Magnússon, miðjumaður Elfsborg, er með brákaðan sköflung og verður frá keppni í nokkrar vikur hið minnsta. Hann meiddist í leik liðsins gegn Malmö á dögunum.
Júlíus fékk högg á sköflunginn í fyrri hálfleik í leiknum gegn Malmö en harkaði af sér og var ekki tekinn af velli fyrr en um miðjan seinni hálfleikinn.
Hann var í byrjunarliðinu í fyrstu tveimur leikjum liðsins en spilaði ekki gegn Norrköping í gær. Hann hafði þá farið í myndatöku þar sem kom í ljós að sköflungur hans var brákaður.
Júlíus gekk til liðs við Elfsborg fyrir tímabilið frá Fredrikstad í Noregi og er hann einn dýrasti leikmaður í sögu sænska félagsins.