FC Oslo gerði sér lítið fyrir og sló Vålerenga út þegar fyrsta umferð norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla fór fram í gær. FC Oslo leikur í D-deild á meðan Vålerenga leikur í úrvalsdeild.
Flest úrvalsdeildarlið lentu ekki í nokkrum vandræðum með neðri deildarliðin sem þau mættu og nokkrir risasigrar sem litu dagsins ljós.
Ekkert slíkt var uppi á teningnum í innanhúshöll FC Oslo en staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. FC Oslo fékk rautt spjald undir lok venjulegs leiktíma og lék því alla framlenginguna einum færri.
Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni og þar reyndust heimamenn hlutskarpari. Þrjár af fjórum vítaspyrnum Vålerenga fóru forgörðum á meðan heimamenn skoruðu úr þremur af fjórum spyrnum sínum og unnu vítaspyrnukeppnina því 3:1.
Varalið Vålerenga leikur í sömu deild og FC Oslo.