Adam Ingi Benediktsson, markvörður Östersund í Svíþjóð, hefur ákveðið að taka sér ótímabundið leyfi frá knattspyrnuiðkun af persónulegum ástæðum.
Östersund, sem leikur í B-deild, skýrir frá ákvörðun Adams Inga á heimasíðu sinni.
„Félagið styður við bakið á Adam og er í stöðugum samskiptum við hann. Við vonum að hann snúi aftur til okkar fljótlega,“ sagði í tilkynningu sænska félagsins.
Hann er 22 ára gamall og gekk til liðs við Östersund frá Gautaborg fyrir síðasta tímabil. Einnig hefur Adam Ingi leikið með Trollhättan og Västra Frölunda að láni frá Gautaborg. Hann var varamarkvörður Östersund í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins en spilaði 15 leiki með liðinu í B-deildinni á síðasta ári.
Markvörðurinn ólst upp hjá HK og FH hér á landi, gekk ungur að árum til liðs við Gautaborg, þar sem hann spilaði 9 leiki í úrvalsdeildinni, og á að baki sjö leiki fyrir U21-árs landsliðið.