París SG frá Frakklandi og Barcelona frá Spáni eru komin í undanúrslit Meistaradeildar karla í fótbolta eftir seinni leikina gegn Aston Villa og Dortmund á Englandi og í Þýskalandi í kvöld.
PSG þurfti virkilega að hafa fyrir því að verja tveggja marka forskot sitt úr fyrri leiknum í París, sem endaði 3:1, en komst samt í 5:1 samanlagt í einvíginu.
Achraf Hakimi og Nuno Mendes virtust vera búnir að gera út um málin með því að koma Frökkunum í 2:0 eftir 28 mínútur.
Youri Tielemans gaf Villa von þegar hann minnkaði muninn í 2:1 á 34. mínútu en PSG var samtals 5:2 yfir í hálfleik.
Það breyttist hratt þegar Aston Villa skoraði tvö mörk snemma í síðari hálfleik. John McGinn á 55. mínútu og svo Ezri Konsa tveimur mínútum síðar eftir sendingu frá Marcusi Rashford.
Staðan var skyndilega orðin 3:2 fyrir Aston Villa og 5:4 samanlagt fyrir PSG, og enn meira en hálftími eftir. En Frakkarnir héldu fengnum hlut og eru komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta Arsenal eða Real Madrid.
Barcelona fór með 4:0 forskot til Þýskalands en lenti í miklum vandræðum með Serhou Guirassy, sem skoraði þrennu fyrir Dortmund. Þýska liðið vann 3:1 en Barcelona 5:3 samanlagt. Þýska liðið skoraði sjálfsmark á 54. mínútu og þar með var staðan 2:1, þannig að forskot Barcelona var aldrei í virkilegri hættu.
Barcelona mætir annað hvort Inter Mílanó eða Bayern München í undanúrslitum.