Carlo Ancelotti horfði á lærisveina sína í Real Madrid tapa fyrir Arsenal, 2:1, á heimavelli í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld.
Real tapaði útileiknum 3:0 og einvíginu samanlagt 5:1. Fór Arsenal því í undanúrslit á kostnað ríkjandi meistaranna.
Ancelotti viðurkenndi á blaðamannafundi eftir leik að hann gæti verið rekinn á morgun vegna úrslitanna.
„Kannski hætti ég eftir tímabilið eða eftir næsta tímabil þegar ég verð samningslaus. Það er ekkert vandamál.
Kannski verð ég rekinn á morgun, eða eftir eitt ár. Kannski eftir tíu ár,“ svaraði Ancelotti er hann var spurður út í framtíð sína.
Hefur Ítalinn verið orðaður grimmt við stöðu landsliðsþjálfara karla hjá Brasilíu undanfarna mánuði.