Portúgalski knattspyrnumaðurinn João Félix gæti verið á heimleið en hann hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár.
Félix þótti einn efnilegasti leikmaður Evrópu er hann fór ungur að árum til Atlético Madrid á metfé.
Sóknarmaðurinn sló hins vegar ekki í gegn hjá Atlético og var lánaður til Barcelona og Chelsea. Enska félagið keypti hann síðan fyrir yfirstandandi tímabil.
Ekki náði Félix að heilla í Lundúnum og var hann því lánaður til AC Milan, þar sem hann hefur einnig átt erfitt uppdráttar.
Record í Portúgal greinir frá því að uppeldisfélagið Benfica hafi mikinn áhuga á að fá Félix í sínar raðir á ný og þá að láni frá Chelsea fyrst um sinn.