Aaron Boupendza, landsliðsmaður Gabon í knattspyrnu, er látinn aðeins 28 ára að aldri eftir að hafa fallið af byggingu í Kína, þar sem hann lék með liði Zhejiang.
Boupendza var sóknarmaður sem lék alls 35 landsleiki fyrir Gabon og skoraði átta mörk. Lék hann til að mynda með liðinu á Afríkumótinu í Kamerún árið 2022.
„Boupendza er minnst sem frábærs sóknarmanns sem setti mark sitt á mótinu í Kamerún. Sambandið og gabonska knattspyrnufjölskyldan vottar fjölskyldu hans sínar dýpstu samúðarkveðjur,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnusambandi Gabons.
Á ferlinum kom Boupendza víða við en ásamt því að spila í Kína og heimalandinu lék hann í Frakklandi, Portúgal, Tyrklandi, Katar, Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum.