Real Madrid tók á móti Arsenal í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.
Fyrri leik liðanna lauk með þriggja marka sigri Arsenal og var brekkan því brött fyrir heimamenn í Real Madrid. Það bjuggust margir við sigri Real Madrid í kvöld en Mikel Arteta og hans menn voru á öðru máli. Eftir frábæra frammistöðu vann Arsenal í kvöld, 2:1 og einvígið því samanlagt 5:1.
Leikurinn fór fjörlega af stað og eftir aðeins tvær mínútur var Kylian Mbappe búinn að koma boltanum í netið fyrir Real Madrid. Markið stóð þó ekki þar sem franski framherjinn var réttilega dæmdur rangstæður.
Á 10. mínútu leiksins var franski dómarinn, Francois Letexier, sendur í VAR skjáinn þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Arsenal ætti að fá vítaspyrnu. Eftir hornspyrnu þá reif Raul Asencio landa sinn Mikel Merino niður í teignum og dæmd var vítaspyrna. Bukayo Saka fór á punktinn og vippaði hann boltanum í vinstra hornið en Thibout Courtois sá við honum og varði frekar auðveldlega.
Á 23. mínútu virtist Real Madrid vera að fá vítaspyrnu þegar Letexier dæmdi á Declan Rice. Englendingurinn var dæmdur brotlegur fyrir að halda í Kylian Mbappe. Eftir langa VAR skoðun þá dróg Letexier dóminn til baka, stuðningsmönnum Real Madrid til mikillar reiði.
Fyrri hálfleikurinn einkenndist af miklum barningi þar sem heimamenn reyndu hvað þeir gátu að pota inn marki en varnarmúr Arsenal stóð fastur og hleypti engu í gegn. Því var markalaust þegar Letexier flautaði til hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en á 65. mínútu bætti Bukayo Saka fyrir vítaspyrnuklúðrið þegar hann kom Arsenal yfir í leiknum og í fjögurra marka forystu samanlagt. Mikel Merino átti þá frábæra sendingu innfyrir vörn heimamanna og fann þar Saka í hlaupinu. Enski landsliðsmaðurinn tók við boltanum og vippaði skemmtilega yfir Courtois í markinu og stuðningsmenn Arsenal í draumalandi.
Tveimur mínútum síðar gerði hinsvegar William Saliba skelfileg mistök í vörn Arsenal þegar hann lét Vinicius Jr. hirða af sér boltann. Vinicius átti lítið annað eftir en að setja boltann í netið sem hann gerði og jafnaði þar með leikinn, 1:1.
Í uppbótartíma kom síðan sigurmark leiksins þegar Mikel Merino renndi boltanum innfyrir vörn Real Madrid á Gabriel Martinelli. Brasilíumaðurinn stakk Fran Garcia af og kláraði færi sitt frábærlega framhjá Courtois í marki heimamanna og innsiglaði sigur Arsenal.