Albert Guðmundsson og samherjar hans í ítalska liðinu Fiorentina tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Sambandsdeildarinnar í fótbolta.
Dugði Fiorentina jafntefli á heimavelli gegn Celje frá Slóveníu, 2:2 en Fiorentina vann útileikinn 2:1.
Albert var í byrjunarliði Fiorentina og fór af velli á lokamínútunni. Moise Kean var hetja Fiorentina því hann skoraði sigurmarkið í einvíginu er hann jafnaði í 2:2 á 67. mínútu.
Spænska liðið Real Betis er einnig komið áfram eftir sigur á Jagiellonia frá Póllandi, 3:1, samanlagt. Skildu liðin jöfn í Póllandi í dag, 1:1, en Betis vann heimaleikinn 2:0.
Fiorentina og Betis mætast í undanúrslitum.