Bodø/Glimt frá Noregi er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir sigur á ítalska stórliðinu Lazio í átta liða úrslitum. Réðust úrslitin í vítakeppni í rosalegum leik.
Valentin Castellanos kom Lazio yfir á 20. mínútu og Tijjani Noslin tryggði ítalska liðinu framlengingu með öðru markinu í uppbótartíma.
Boulaye Dia kom Lazio síðan í 3:0 á 99. mínútu. Bodø/Glimt neitaði að gefast upp og Andreas Helmersen tryggði norska liðinu vítakeppni með marki á 109. mínútu.
Í henni skoraði Bodø/Glimt úr þremur spyrnum gegn tveimur og fór því áfram í undanúrslitin þar sem liðið mætir Tottenham.
Norska liðið var ekki eina liðið frá Norðurlöndunum sem komst í undanúrslit í Evrópukeppni í kvöld því Djurgården frá Svíþjóð gerði slíkt hið sama er liðið vann Rapid Vín í Sambandsdeildinni.
Rapid vann fyrri leikinn á útivelli 1:0 en staðan eftir venjulegan leiktíma í kvöld var 2:1 fyrir Djurgården og 2:2 samanlagt. Varð því að framlengja. Í framlengingunni skoraði Djurgården tvö mörk og fór áfram.
Djurgården fær verðugt verkefni í undanúrslitum því liðið mætir enska liðinu Chelsea.