Manchester United er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir sigur á franska liðinu Lyon í stórkostlegum leik á Old Trafford í Manchester í kvöld.
United vann framlengdan leik 5:4 eftir að Lyon komst í 4:2 í framlengingu. Enska liðið mætir Athletic Bilbao frá Spáni í undanúrslitum. Urðu samanlagðar lokatölur í einvíginu 7:6.
Heimamenn í United byrjuðu betur og komust yfir á 10. mínútu er Manuel Ugarte afgreiddi boltann af öryggi í markið eftir sendingu frá Alejandro Garnacho.
Var staðan 1:0 fram að lokamínútu fyrri hálfleiks en þá tvöfaldaði Diogo Dalot forskotið með góðu skoti í stöng og inn eftir langa sendingu frá Harry Maguire.
Gestirnir í Lyon neituðu að gefast upp og þeir minnkuðu muninn í 2:1 á 71. mínútu þegar Corentin Tolisso skoraði með skalla af stuttu færi.
Átta mínútum síðar jafnaði Nicolás Tagliafico með skoti úr þröngu færi eftir sendingu frá Ainsley Maitland-Niles.
Urðu mörkin ekki fleiri en Lyon varð fyrir áfalli á 89. mínútu þegar áðurnefndur Tolisso fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Léku gestirnir því manni færri alla framlenginguna.
Þrátt fyrir það skoraði Rayan Cherki þriðja markið á 105. mínútu með glæsilegri afgreiðslu við vítateigslínuna. Alexandre Lacazette gerði svo annað mark Lyon í framlengingunni úr víti á 110. mínútunni og staðan allt í einu orðin 4:2 fyrir Lyon.
United neitaði að gefast upp og Bruno Fernandes minnkaði muninn úr víti á 114. mínútu og Kobbie Mainoo jafnaði með glæsilegri afgreiðslu úr teignum á lokamínútu framlengingarinnar.
Heimamenn voru ekki hættir því varnarmaðurinn Harry Maguire tryggði United einn ótrúlegasta sigur liðsins í mörg ár er hann skallaði í netið af stuttu færi í uppbótartíma framlengingarinnar og þar við sat.