Enska úrvalsdeildarfélagið Everton er tilbúið að veita ítalska stórliðinu Inter Mílanó samkeppni um þjónustu Alberts Guðmundssonar, sem nú er á mála hjá Fiorentina á láni frá Genoa á Ítalíu.
Frá þessu segir vefmiðillinn Team Talk og hefur eftir heimildarmönnum að enska liðið, sem leikur á nýjum glæsilegum heimvelli í Liverpool á næstu leiktíð, fylgist vel með gangi mála hjá Alberti.
Fiorentina samdi við Genoa um forkaupsrétt á Alberti en enn er óvíst hvort ítalska félagið hyggist nýta þann rétt.
Fiorentina greiddi Genoa um 5 milljónir punda fyrir Albert en forkaupsrétturinn hljóðar upp á 14 milljónir punda auk 3 milljóna punda í viðbótargreiðslur.
Heimildir enska miðilsins herma að verðið á Alberti muni ekki í meira en 20 milljónir punda í sumar ef Fiorentina kýs að nýta ekki forkaupsréttinn. Verð sem Everton gæti vel sætt sig við.
Stærsta ógn Everton kemur þó frá stórliði Inter Mílanó sem enn hefur áhuga á þjónustu Alberts, sem hefur sannað sig í A-deild ítalska fótboltans.
David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, þarf á styrkingu að halda fremst á vellinum en samningur Dominics Calvert-Lewins er að renna út og Armando Broja stefnir aftur til Chelsea þaðan sem hann er á láni.
Liam Delap framherji Ipswich hefur einnig verið orðaður við Everton sem og Evan Ferguson frá West Ham en hann er þar á láni frá Brighton.