Barcelona er spænskur bikarmeistari í fótbolta eftir magnaðan sigur á Real Madrid, 3:2, í framlengdum úrslitaleik í Sevilla í kvöld.
Barcelona byrjaði betur og Pedri skoraði fyrsta markið á 28. mínútu eftir sendingu frá Lamine Yamal. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Real sneri leiknum sér í vil á sjö mínútna kafla í seinni hálfleik. Fyrst jafnaði Kylian Mbappé á 70. mínútu og sjö mínútum síðar kom Aurélien Tchouaméni Real í 2:1.
Barcelona gafst ekki upp því Ferrán Torres tryggði liðinu framlengingu með fjórða marki leiksins á 84. mínútu í afar fjörlegum seinni hálfleik.
Í framlengingunni var ekkert skorað fram að 116. mínútu en þá sá franski varnarmaðurinn Joules Koundé um að gera þriðja mark Barcelona og tryggja liðinu dramatískan sigur á erkifjendunum.