Javier Tebas, forseti efstu deildar karla í spænska fótboltanum, var allt annað en sáttur við hegðun Real Madrid fyrir úrslitaleik liðsins gegn Barcelona í bikarkeppninni sem fer fram í Sevilla í kvöld.
Ricardo de Burgos Bengoetxea dæmir úrslitaleikinn í kvöld en forráðamenn Real Madrid voru ekki sáttir við það. Þá birti sjónvarpsstöð félagsins myndband af hinum ýmsu mistökum sem dómarinn hefur gert á ferli sínum á heimasíðu þess í aðdraganda leiksins.
Dómarinn felldi tár á blaðamannafundi í gær vegna ásakana Real Madrid. Madridingar slepptu báðum æfingum sínum í gær og blaðamannafundi liðsins í mótmælaskyni og hótuðu að spila ekki leikinn.
Þeir munu hins vegar mæta til leiks í kvöld en Tebas var allt annað en sáttur við framkomu félagsins.
„Þetta er ekki fótbolti, heldur er félagið að reyna setja sig í valdastöðu. Þeir fíla ekki neitt sem spænska knattspyrnusambandið gerir og neita að taka þátt í breytingu á dómarastarfsemi en kvarta samt.
Síðan þegar dómarinn verður þreyttur og tjáir sig eftir sífellda áreitni frá Real Madrid þá missir félagið vitið, hættir við blaðamannafundi, æfingar og hótar að spila ekki leikinn. Þeir vilja ekki bæta fótboltann, heldur fá sinn eigin,“ sagði Tebas meðal annars á X.