Ítalinn Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri karlaliðs Real Madrid, verður að öllum líkindum næsti þjálfari brasilíska karlalandsliðsins.
SkySports segir frá en Ancelotti mun yfirgefa Real Madrid, annaðhvort í þessari viku eða þegar tímabilinu lýkur.
Ancelotti er í viðræðum við brasilíska knattspyrnusambandið sem hefur lengi viljað fá hann. Sambandið vill að hann taki við fyrir landsleikina í júní.
Tímabil Real Madrid hefur verið mikil vonbrigði en liðið tapaði úrslitaleik spænska bikarsins fyrir Barcelona í gærkvöldi, 3:2, og datt út úr átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir Arsenal, samanlagt 5:1.
Þá er Real fjórum stigum á eftir Barcelona í deildinni.
Hins vegar hefur Ancelotti unnið allt sem hægt er með liðinu, meðal annars þrjá Evrópumeistaratitla.