Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er að ljúka sínu öðru tímabili sem fyrirliði Bayern München.
Hún tók við þýska meistaraskildinum í fyrra, gerir það aftur á sunnudaginn eftir lokaleik Bayern gegn Essen í þýsku 1. deildinni, og Glódís lyfti bikarnum í Köln síðasta fimmtudag þegar Bayern vann Werder Bremen 4:2 í úrslitaleik.
Hún segir að það sé gríðarlega mikill heiður að vera fyrirliði í þessu stóra félagi.
„Það kom mér á óvart til að byrja með þegar þau komu til mín og sögðu að þau vildu setja mig í þetta hlutverk. Ég held að útlendingur hafi ekki áður verið fyrirliði Bayern München. Þetta er gríðarlega stórt hlutverk með mikilli ábyrgð, ég var strax spennt fyrir því en um leið fylgdi því mikið stress því það er mikil pressa að ná árangri í þessu félagi.
Maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast en ég held að ég hafi vaxið inn í hlutverkið og sé betri í dag en þegar ég tók við. Þetta er gríðarlega skemmtilegt en um leið krefjandi. En ég er fyrst og fremst glöð með liðið okkar og stelpurnar. Það er ótrúlega gaman að fá að leiða þetta lið inn á völlinn í hverjum einasta leik og fá að spila með þeim. Það gefur mér mesta orku,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir.
Ítarlegt viðtal við Glódísi er í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag, og það er einnig aðgengilegt í appinu Mogginn.