Aron Einar Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er kominn með liði sínu Al Gharafa í undanúrslit Emir-bikarsins í Katar.
Al Gharafa sigraði katörsku meistarana Al Sadd í vítaspyrnukeppni eftir jafntefli liðanna, 2:2, í framlengdum leik í átta liða úrslitunum í dag.
Aron lék allan leikinn í vörn Al Gharafa en varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 67. mínútu og með því minnkaði Al Sadd muninn í leiknum í 2:1. Meistararnir jöfnuðu síðan á níundu mínútu í uppbótartíma, 2:2, og í kjölfarið fylgdi framlenging og síðan vítaspyrnukeppnin.
Aron var einn þeirra sem fóru á vítapunktinn og hann skoraði fyrir Al Gharafa í fjórðu umferð keppninnar. Úrslit réðust í fyrstu umferð í bráðabana og Al Gharafa vann vítakeppnina 5:4.
Aron var ekki gjaldgengur með Al Gharafa í A-deildinni í Katar í vetur en mátti hins vegar leika með liðinu í Meistaradeild Asíu og svo í Emir-bikarnum. Með leiknum í dag hefur hann því náð að spila átta leiki með félaginu á þessu tímabili og á fram undan í það minnsta undanúrslitaleik í keppninni.
Fyrr í þessum mánuði skrifaði Aron undir nýjan samning við Al Gharafa og leikur áfram með liðinu á næsta tímabili.