Trent Alexander-Arnold var harðlega gagnrýndur eftir frumraun sína með Real Madrid í 1:1-jafntefli liðsins gegn Al-Hilal á HM félagsliða í gærkvöld.
Alexander-Arnold var í byrjunarliði Real Madrid í fyrsta skipti síðan hann gekk í raðir liðsins frá Liverpool fyrr í sumar.
Madrídingar voru langt frá sínu besta í leiknum og voru spænskir miðlar fljótir að gagnrýna frammistöðu liðsins.
„Líkamlega langt frá sínu besta, þetta var ekki besta frumraun Englendingsins, sem náði ekki að leggja sitt af mörkum sóknarlega,“ skrifaði SPORT og gaf Alexander-Arnold 5/10 í einkunn.
„Mikið hefur verið rætt um Trent Alexander-Arnold fyrir frumraun hans, en hún var vonbrigði. Hann var ekki upp á sitt besta varnarlega og hann átti erfitt með að hafa áhrif sóknarlega áður en hann var tekinn af velli,“ skrifaði Football Espana sem gaf honum einnig 5/10 í einkunn.