Landsliðsmálin í endurskoðun

Á efstu myndinni má sjá iðkendur í öllum greinum hjólreiða …
Á efstu myndinni má sjá iðkendur í öllum greinum hjólreiða í flokkunum U17, U19 og U23 í afreksbúðum Hjólreiðasambandsins í vor í Reykjadal í Mosfellsbæ. Gert er ráð fyrir að velja um 10-12 úr þessum hópi í úrvalshópinn í vetur að sögn Mikaels Schou, afreksstjóra HRÍ. Ljósmyndir/HRÍ

Um síðustu helgi lauk formlega keppnisárinu í hjólreiðum hér á landi með Íslandsmótinu í cyclocross. Það er ekki þó það eina sem íslenskt hjólreiðafólk hefur staðið í núna á haustmánuðum, því sitt hvorum megin við mánaðamótin héldu íslenskir keppendur annars vegar út til þátttöku á Evrópumótinu í götuhjólreiðum í Drenthe í Hollandi og hins vegar á heimsmeistaramótið í malarhjólreiðum í Veneto-héraði á Ítalíu.

Mbl.is ræddi við Mikael Schou afreksstjóra Hjólreiðasambandsins eftir Evrópumótið og fór yfir framtíðarplön fyrir landsliðshópinn, en hann segir jafnframt að vegna fyrirkomulags afreksstyrkja séu íslensku keppendurnir oft ekki að keppa á réttu getustigi og það hamli að hluta afreksstarfinu.

Samtals héldu sex keppendur utan til þátttöku í Hollandi í lok síðasta mánaðar og spreyttu sig gegn mörgu af besta hjólreiðafólki heims. Mikael segir vel hafa tekist til og árangurinn í flestum tilfellum verið á pari við væntingar. Greinin sé enn mjög ung hér á landi og ferðir sem þessar bæti vel við í reynslubankann. Þá hafi þátttakan staðfest að umgjörð í kringum ferðir sem þessar sé að verða eins og smurð vél.

Hópurinn sem fór á Evrópumótið í Hollandi í september.
Hópurinn sem fór á Evrópumótið í Hollandi í september. Ljósmynd/HRÍ

Úrvalshópur settur saman sem verður í æfingaeftirliti

Mikael segir að á næstunni verði settur saman úrvals landsliðshópur fyrir næsta tímabil, en hópurinn mun fá stuðning frá Hjólreiðasambandinu og verða í æfingaeftirliti yfir veturinn. Sett verði upp langtímamarkmið sem keppendur geti stefnt að og keppnisferðir settar sem gulrót í þeirri vegferð. Þá segir Mikael að kynslóðaskipti séu að verða í greininni með auknum fjölda yngri keppenda sem séu efni í afrekskeppendur.

Hópurinn verður settur saman af um 10-12 keppendum úr hópi ungmenna, þ.e. úr U23 og U19 að sögn Mikaels.

Evrópumótið í Hollandi

Fyrir hönd Íslands á Evrópumótinu í þetta skiptið fóru út þau Bergdís Eva Sveinsdóttir og Davíð Jónsson sem kepptu í götuhjólreiðum og tímatöku í U23. Þá fór einnig Eyþór Eiríksson sem keppti í U23 í götuhjólreiðum. Í meistaraflokki (eða svokölluðum Elite-flokki) kepptu þau Kristín Edda Sveinsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Ingvar Ómarsson öll í bæði tímatöku og götuhjólreiðum. Þess ber að geta að flestir keppinautar þeirra á Evrópumótinu eru atvinnumenn í íþróttinni, en fyrir utan Ingvar, sem er að hluta atvinnumaður, hafa íslensku keppendurnir sinnt æfingum og keppni samhliða öðru námi eða vinnu.

Eyþór Eiríksson og Davíð Jónsson á ráslínunni í U23 í …
Eyþór Eiríksson og Davíð Jónsson á ráslínunni í U23 í götuhjólreiðum á Evrópumótinu. Ljósmynd/HRÍ

Í tímatöku U23 endaði Bergdís Eva í 35. sæti af jafnmörgum keppendum á meðan Hafdís og Kristín Edda voru í 27. og 30. sæti í meistaraflokki af þrjátíu keppendum. Davíð lauk keppni í tímatöku í 31. sæti af 39 keppendum og Ingvar var í sæti 28 af 32. Íslensku keppendurnir hafa þó líklega öll verið spenntari fyrir hefðbundnu götuhjólakeppninni sem er bæði mun stærri vettvangur og vinsælli. Mátti enda sjá nokkrar af skærustu stjörnum hjólreiða þar, meðal annars Wout van Aert, Lotte Kopecky, Mads Pedersen og Demi Vollering.  

Óreiðukenndari keppnir

Götuhjólreiðakeppnir sem eru annað hvort heims- eða Evrópumót, sem og Ólympíumót, eru frábrugðin öðrum götuhjólakeppnum á þann veg að keppendur mega ekki vera í fjarskiptasambandi við liðstjóra. Mikael segir að þetta þýði að keppnirnar verði oft talsvert óreiðukenndari og meiri hraði allavega til að byrja með.

Þessar keppnir eru venjulega byggðar þannig upp að um helmingur vegalengdarinnar (frá 108 km í U23 kvk upp í 200 km í elite kk) er eftir hefðbundnum vegum, en svo í seinni hlutanum er komið inn á styttri hring, sem í þetta skiptið var um 14 km langur. Alla jafna getur reynst þrautin þyngri að halda í við fyrsta hóp fram að hringjunum, en ef það tekst ekki er hætt á að keppendur séu flaggaðir út. Slíkt er alls ekki óalgengt og bæði í kvenna- og karlaflokki var um þriðjungur keppenda flaggaður út og náði því ekki að klára alla leið.

Kristín Edda Sveinsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir á Evrópumótinu.
Kristín Edda Sveinsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir á Evrópumótinu. Ljósmynd/HRÍ

52 km/klst meðalhraði

Í meistaraflokki karla lenti Ingvar í byltu eftir að hjólari fyrir framan hann fellur í jörðina. Þrátt fyrir að Ingvar hafi náð fremsta hóp aftur, tók það talsverða orku og datt hann svo úr hópnum og varð að hætta keppni. Mikael bendir á að meðalhraði fyrsta hóps hafi verið um 52 km/klst og að mestu í hliðarvindi, en það ætti að gefa ágæta mynd af erfiðleikastiginu.

Hafdís og Kristín Edda misstu einnig af fyrsta hópi, en tókst að ná í skottið á honum og inn í hringina, þrátt fyrir að Hafdís hafi einnig lent í smá árekstri. Báðar kláruðu tvo af fimm hringjum áður en þær voru flaggaðar út og segir Mikael það í raun mjög góðan árangur.

Keppendur á heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum á Ítalíu.
Keppendur á heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum á Ítalíu. Ljósmynd/HRÍ

Davíð og Eyþór voru sem fyrr segir í U23 karla keppninni. Eyþór datt út áður en komið var í hringina, en Davíð náði að klára rúmlega þrjá af fimm hringjum áður en hann var flaggaður út. Bergdís komst einnig í hringina og kláraði þrjá af fimm áður en hún var flögguð út.

Fjögur héldu til Ítalíu á heimsmeistaramótið

Fjórir keppendur frá Íslandi héldu svo út til Ítalíu í byrjun mánaðarins til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum, en þetta er aðeins í annað skiptið sem heimsmeistaramót í greininni fer fram, enda um nýlegan anga í hjólreiðum að ræða.

Fyrir hönd Íslands fóru á mótið þau; Björg Hákonardóttir í Breiðabliki, Þorsteinn Bárðarson í Tindi, Stefán Helgi Garðarsson í HFA og Róbert Lee Tómasson í Tindi. Kepptu þau öll í aldursflokkum á mótinu. Björk var í 16. sæti af 20 í aldursflokki 35-39 ára. Þorsteinn var í 46. sæti og Stefán í 91. sæti af 97 í flokki 45-49 ára. Róbert Lee náði að klára keppni en fékk ekki lokatíma í flokki 60-64 ára.

Ingvar Ómarsson tók þátt í götuhjólreiðum á Evrópumótinu.
Ingvar Ómarsson tók þátt í götuhjólreiðum á Evrópumótinu. Ljósmynd/HRÍ

„Við fáum ekki pörun á okkar getu“

Mikael segir það alltaf skemmtilegt að mæta á stórmótin eins og heimsmeistaramót, Evrópumót, Ólympíumót æskunnar, Ólympíumót og Norðurlandamót, en þetta eru allt mót sem ÍSÍ veitir afreksstyrki til að fara á. Hins vegar séu þetta ekki endilega mót sem best sé að stefna á þegar horft er til þess hvernig best sé að byggja upp afreksstefnu í hjólreiðum og afreksfólk hér á landi að mati Mikaels. „En svo er það sú staðreynd að við erum alltaf að keppa á vitlausum vettvangi miðað við getu,“ segir hann. „Við fáum ekki pörun á okkar getu sem myndi hjálpa okkur að lyfta okkur upp,“ bætir hann við.

Í tímatöku fer einn af stað í einu í stað …
Í tímatöku fer einn af stað í einu í stað þess að hópurinn fari allur af stað í einu eins og gert er í götuhjólreiðakeppninni. Ljósmynd/HRÍ

Segist Mikael vilja leggja aukna áherslu á minni mót meðan íþróttagreinin sé að byggjast upp hér á landi þannig að íslensku keppendurnir séu á réttum vettvangi. Nefnir hann í því samhengi ýmsar keppnir á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu þar sem mótherjar eru ekki efsta þrepið í atvinnuhjólreiðum. Staðan er hins vegar sú að ekki fást styrkir fyrir þessi minni mót.

Þó gæti einhver breyting orðið á þessu að sögn Mikaels, en verið er að endurskoða afreksstarf ÍSÍ nú eftir að Vésteinn Hafsteinsson var ráðinn afreksstjóri sambandsins í byrjun árs. 

Segir aukið einkafjármagn þurfa til uppbyggingar

Mikael nefnir að afreksstarf þurfi að hugsa á áratugaskala þar sem ungt fólk sé sent út reglulega í ýmiss konar keppnir og byggja upp landsliðshóp af þessu fólki. Hingað til hafi nokkur hjólreiðafélög verið dugleg að standa undir þessu og segir hann það gott framtak. Hins vegar þyrfti einnig að ná inn einkafjármagni í landsliðsmálin til að geta sinnt öllum bestu ungu keppendum eftir bestu getu og senda þá út sem eiga erindi í erlendu mótin.

Mikael tekur fram að almennt hafi náðst mikill árangur í landsliðsmálunum. Allir sem að þeim komi hafi staðið sig mjög vel og að í dag sé til dæmis undirbúningur og upplýsingaflæði mun betra en það var bara fyrir nokkrum árum. Þannig sé nú komin mun meiri reynsla á hluti eins og mataræði, búnað, flutning og skipulag í kringum keppnirnar. Þetta leiði til þess að keppendurnir séu ekki stressaðir í upphitun og þegar keppni sé að byrja yfir öðrum hlutum en keppninni sjálfri. „Þá nær fólk að vera yfirvegað, leggur sig 100% og nær að fylgja fyrirmælum,“ segir Mikael. Það skili sér svo í að keppendur nái lengra í keppnum, jafnvel að klára keppnir sem sé alls ekki sjálfsagt á þessu getustigi.

Það er að mörgu að huga fyrir keppni og segir …
Það er að mörgu að huga fyrir keppni og segir Mikael að allt slíkt hafi slípast vel til á síðustu árum með aukinni þátttöku Íslendinga á erlendum mótum. Ljósmynd/HRÍ

Nær til allra keppnisgreina hjólreiða

Spurður nánar út í landsliðshópinn sem sé verið að setja saman segir Mikael að ekki sé búið að gefa út hverjir verði þar inni, en að það verði líka fljótandi yfir veturinn eftir því hvernig fólk sé að standa sig. „Það verða vonandi ekki bara stórmótin, heldur líka fleiri minni mót erlendis,“ segir hann um keppnisdagatal þeirra á næsta ári.

Mikael tekur einnig fram að afreksstefnan og landsliðshópurinn nái ekki eingöngu til götuhjólreiða, þó að mest hafi verið fjallað um það hér. Hann segir að í fjallahjólreiðum, maraþon fjallahjólreiðum og fjallabruni sé mikið af ungu hæfileikaríku fólki sem vonir standi til að muni æfa vel og svo keppa erlendis.

Af þeim sem kepptu á Evrópumótinu má einnig nefna að Davíð býr þessa stundina í Svíþjóð þar sem hann er við nám og Eyþór er í námi í Hollandi. Segir Mikael að þeir búi þar með að því að hafa stutt að sækja í ýmsar keppnir og að vonandi skili nálægðin sér í fleiri keppnum fyrir þá á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka