Anna með fjögur heimsmet og sex Evrópumet

Anna Guðrún Halldórsdóttir bítur í gullpening sem hún vann í …
Anna Guðrún Halldórsdóttir bítur í gullpening sem hún vann í Haugasundi. Ljósmynd/Gunnar Biering Agnarsson

Anna Guðrún Halldórsdóttir kom, sá og sigraði á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Haugasundi í Noregi um liðna helgi þar sem hún setti alls fjögur heimsmet og sex Evrópumet.

Anna Guðrún, sem keppir í -87 flokki 55 til 59 ára, bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína og varð margfaldur Evrópumeistari.

Hún setti heimsmet í jafnhöttun er hún lyfti mest 78 kg. Fyrr á mótinu hafði hún sett heimsmetið, 76 kg, en metið fyrir mótið var 74 kg.

Um leið setti Anna Guðrún Evrópumet í jafnhöttun í tvígang en metið fyrir mótið var 62 kg.

Einnig setti hún heimsmet í samanlögðu, 136 kg, eftir að hafa fyrr á mótinu sett heimsmet er hún lyfti samanlagt 132 kg. Metið fyrir mótið var 129 kg.

Sömuleiðis setti Anna Guðrún Evrópumet í samanlögðu í tvígang. Evrópumetið fyrir mótið var 115 kg.

Þá setti hún einnig Evrópumet í snörun er hún lyfti mest 58 kg. Fyrr á mótinu hafði hún sett metið er hún lyfti 56 kg. Evrópumetið fyrir mótið var 55 kg.

Varð virkilega reið

„Ég fór á Mediterranean Masters International Open Tournament í Durres í Albaníu í apríl til að „hita upp“ fyrir erlend mót og ná úr mér skjálftanum fyrir Evrópumótið. Þar var ekki hægt að setja alþjóðleg met en árangur þar taldist til Íslandsmeta. Mótið gekk vel, allar sex lyfturnar voru gildar.

Planið fyrir 17. júní var, líkt og á öllum öðrum mótum, að ná sex gildum lyftum. Það hafði ekki klikkað hjá mér fram að þessu. Núna tók ég allar lyftur gildar í fyrri hlutanum, snörun var 54, 56 og 58 kg þar sem 56 og 58 kg voru Evrópumet,“ sagði Anna Guðrún er hún fór yfir mótið og undirbúninginn í samtali við mbl.is.

„Síðari hlutinn, jafnhöttun, byrjaði á ógildri 74 kg tilraun. Ég varð virkilega reið og ákvað að halda mig við áður ákveðið plan og þyngja frekar en að reyna aftur við sömu þyngd. 76 kg fóru upp, lyfta gild.

Evrópu- og heimsmet og þar með Evrópu- og heimsmet í samanlögðu, lyftur tvö í hvorum hluta, samtals 132 kg. Hér var eldra met 62 kg og aðeins 115 kg í samanlögðu. Lyfta þrjú var svo líka gild og þar með sló ég þau met sem ég setti á undan og á því núna skráð, eða þau verða skráð,“ hélt Anna Guðrún áfram.

Anna Guðrún Halldórsdóttir með gullverðlaun um hálsinn í Haugasundi.
Anna Guðrún Halldórsdóttir með gullverðlaun um hálsinn í Haugasundi. Ljósmynd/Gunnar Biering Agnarsson

Heimsmeistaramót í Finnlandi næst

Næst á dagskrá hjá henni er heimsmeistaramótið í Finnlandi þar sem stefnan er sett á að verða heimsmeistari.

„Ég er Evrópumeistari en alls ekki heimsmeistari, bara heimsmetshafi,“ útskýrði Anna Guðrún.

„Til að verða heimsmeistari þarf ég að vinna minn flokk á heimsmeistaramóti, svo næst á dagskrá er heimsmeistaramót í Rovaniemi í Finnlandi í september næstkomandi. Vonandi tekst mér þar að bæta metin sem ég setti í gær [á mánudag] og einnig að vinna minn flokk,“ bætti hún við.

Var úrskurðuð í tveggja ára keppnisbann

Anna Guðrún var úrskurðuð í keppnisbann til tveggja ára í október árið 2021 eftir að hún féll á lyfjaprófi. Lauk því í október árið 2023.

„Ég féll á lyfjaprófi en ég var að nota lyfið Livial við tíðahvörfum sem er mjög algengt meðal kvenna og í því er Tibolone, efni sem er á bannlista alþjóðlega lyfjaeftirlitsins WADA.

Ég er lyfjalaus í dag en lyf lík því sem ég tók eru mikið notuð af stórum hluta kvenna til að gera daglegt líf þeirra bærilegra.

Það er skandall að þetta örlitla magn af testósteróni felli keppanda því yngri konur framleiða sjálfar jafnvel meira testósterón, en við það að eldast minnkar sú framleiðsla í líkamanum,“ sagði Anna Guðrún hreinskilin.

Vitnaði hún að lokum í opið innlegg á Facebook-síðu sinni frá því í janúar árið 2022 þar sem Anna Guðrún fór yfir ástæður bannsins og andlega erfiðleika sem fylgdu frá falli á lyfjaprófi fram að úrskurði um keppnisbann. Innleggið má sjá hér neðst í fréttinni.

„Myndin af Jackie Chan við innleggið á vel við, sér í lagi eftir gærdaginn!“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert