Snæfríður sló metið og var nálægt bronsi á EM

Snæfríður Sól Jórunnardóttir nýkomin í mark í úrslitasundinu í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir nýkomin í mark í úrslitasundinu í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Snæfríður Sól Jórunnardóttir hafnaði í fjórða sæti í 200 metra skriðsundi á nýju Íslandsmeti á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug í Belgrad í Serbíu í dag.

Snæfríður var í harðri baráttu um bronsverðlaunin í sundinu og kom í mark á 1:57,85 mínútu, bætti metið sitt frá því í gær um 13/100 úr sekúndu og var 49/100 úr sekúndu frá þriðja sætinu.

Nicole Maier frá Þýskalandi náði að skáka henni eftir æsispennandi endasprett og varð þriðja á 1:57,36 mínútu.

Barbora Seemanova frá Tékklandi varð Evrópumeistari á sannfærandi hátt á 1:55,37 mínútu og silfrið fékk Minna Abraham frá Ungverjalandi á 1:57,22 mínútu.

Íslandsmetið  sem Snæfríður setti í undanúrslitum mótsins í gær er 1:57,98 mínúta en Ólympíulágmarkið í greininni er 1:57,26 mínúta. Hún náði þá þriðja besta tíma af öllum keppendum í undanúrslitunum.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir stingur sér í laugina í Belgrad.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir stingur sér í laugina í Belgrad. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert