Leysti McGregor af hólmi með glæsibrag

Alex Pereira fagnar sigri í nótt, Jiri Prochazka er í …
Alex Pereira fagnar sigri í nótt, Jiri Prochazka er í forgrunni AFP/Ian Maule

Alex Pereira varði heimsmeistaratitil sinn í léttþungavigt með tilþrifum gegn Tékkanum Jiri Prozacha í Las Vegas í nótt. Brasilíumaðurinn sigraði með rothöggi í annari lotu.

Conor McGregor átti upphaflega að mæta Michael Chandler á UFC 303 í nótt en þurfti frá að hverfa vegna tábrots. Pereira og Prochazka voru kallaðir til í staðinn og mættust í annað sinn á innan við ári. Pereira sigraði fyrri viðureign þeirra í nóvember og tryggði sér heimsmeistaratitilinn.

Pereira hefur verið á magnaðri siglingu í UFC síðan hann gekk til liðs við bardagasamtökin árið 2021. Í níu bardögum innan UFC hefur hann tvisvar sinnum unnið titilbardaga og tvisvar varið titilinn í tveimur mismunandi þyngdarflokkum.

Brasilíumaðurinn sló Prochazka niður með vinstri krók undir lok fyrstu lotu og eftir tíu sekúndur í annari lotu sparkaði hann í höfuð Tékkans sem steinlá. Herb Dean, dómari bardagans, var seinn til að stöðva viðureignina og Pereira lét höggin dynja á Prochazka áður en Dean stoppaði bardagann.

Líklegt þykir að Pereira færi sig upp í þungavigt og geri tilraun til að verða fyrstur í sögunni til að verða heimsmeistari í þremur þyngdarflokkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert