Vésteinn: „Unga fólkið ræður bara ekki við þetta!“

„Íslendingar eru rosalega kappsamt, eljusamt og duglegt fólk,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, í Dagmálum.

Vésteinn, sem er 63 ára gamall, var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ í janúar á síðasta ári eftir afar farsælan feril í íþróttum, fyrst sem kringlukastari og síðar sem afreksþjálfari.

Tek hatt minn ofan fyrir þessu

Vésteinn segir mikinn hraða einkenna íslenskt samfélag og að margir séu að kikna undan álaginu.

„Við rjúkum af stað í að gera eitthvað og ég tek hatt minn ofan fyrir þessu, Svíar eru ekki svona, en svo komumst við ekki yfir það,“ sagði Vésteinn.

„Það er ofboðslega mikil pressa í þessu nútímasamfélagi og það er mjög óhagstætt fyrir afreksíþróttafólk því við erum á kafi í öllu og engu.

Það er endalaus spenna í þjóðfélaginu og það er allt svart og hvítt. Hinn heilagi sannleikur en lífið er bara ekki þannig. Það er bara eðlilegt að sofa átta til tíu tíma á dag og að borða sex máltíðir á dag, eitthvað sem enginn hefur tíma fyrir í dag.

Samfélasgmiðlarnir gera það að verkum unga fólkið í dag er fætt inn í símann og þau lifa í gegnum símann sinn. Það er allt í beinni og þetta er svakaleg pressa. Unga fólkið ræður bara ekki við þetta!“ sagði Vésteinn meðal annars.

Viðtalið við Véstein í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Vésteinn Hafsteinsson.
Vésteinn Hafsteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert