Gamla ljósmyndin: Evrópumeistarinn og ráðherrann

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þessa merkilegu mynd tók ljósmyndarinn þekkti Ólafur K. Magnússon sem myndaði í áratugi fyrir Morgunblaðið. Þar má sjá Torfa Bryngeirsson Evrópumeistara í langstökki á spjalli við Bjarna Benediktsson sem þá var utanríkis-, dóms- og menntamálaráðherra. Á myndinni eru einnig Jóhanna Pétursdóttir eiginkona Torfa og móðir Torfa er í upphlutnum en hún hét Lovísa Gísladóttir. 

Afar sennilegt er að myndin sé tekin í hófi sem haldið var eftir heimkomu íslensku keppendanna eftir EM í frjálsum í Brussel árið 1950 og er myndin því 74 ára gömul. Förin á EM var mikil Bjarmalandsför því Torfi og Gunnar Huseby urðu báðir Evrópumeistarar og Örn Clausen hlaut silfurverðlaun. 

Þess má geta að Bjarni var um tíma ritstjóri Morgunblaðsins og stýrði blaðinu á árunum 1956-1959 ásamt þeim Sigurði Bjarnasyni frá Vigur og Einari Ásmundssyni en Morgunblaðið á í dag 111 ára afmæli. 

Torfi Bryngeirsson var mikill afreksmaður en á EM 1950 komst hann í úrslit í tveimur greinum, langstökki og stangarstökki. Hann hefði getað barist um verðlaun í báðum greinum sem er nánast með ólíkindum miðað við þær aðstæður sem menn höfðu til æfinga á Íslandi á þeim tíma. 

Hann þurfi að velja á milli greinanna þegar að úrslitum kom og valdi langstökkið sem kom nokkuð á óvart því hann var þekktari fyrir stangarstökkið. Torfi stökk 7,32 metra og sigraði en slíkt stökk væri ágætur árangur á Íslandsmóti í frjálsum enn þann dag í dag. 

Torfi keppti í stangarstökki á Ólympíuleikunum í London árið 1948 og hafnaði í 14. sæti. Hann stökk 3,80 metra og vantaði 20 cm upp á til að komast í úrslit. Á Ólympíuleikunum í Helsinki fjórum árum síðar náði Torfi að stökkva 4 metra og komast í úrslit. Hafnaði hann í 14. sæti í úrslitunum með 3,95 metra. Sama ár tókst honum að stökkva 4,35 metra og setja Íslandsmet. 

Af ýmsu er að taka þegar kemur að afrekum Torfa og er hér stiklað á stóru. Landskeppnin gegn Dönum og Norðmönnum í Osló árið 1951 er þekkt meðal íslenskra íþróttaáhugamanna. Í þeirri keppni sigraði Torfi í báðum greinum auk þess að vera í sigursveitinni í 4x100 metra boðhlaupi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert