Þriðja stigamótinu í pool lauk í dag á Billiardbarnum. Keppt var í 10-ball en að lokum var það hinn þrautreyndi Alan Trigg sem bar sigur úr býtum.
Það sem vakti hvað mesta athygli var þegar Hlynur Stefánsson mætti afa sínum, Guðmundi Gesti Sveinssyni, í 8-manna úrslitum mótsins.
Hlynur er aðeins 15 ára gamall og þykir einn efnilegasti pool leikmaðurinn í Evrópu. Hlynur vann fyrsta stigamótið í vetur og endaði í öðru sæti í öðru mótinu en hafði til þessa ekki þurft að berjast við afa sinn um að komast áfram. Í þetta sinn var það Hlynur sem hafði betur, 7:3, í áhugaverðri viðureign.
Trigg stóð svo uppi sem sigurvegari eftir að hafa lagt Zóphonías Árnason að velli í úrslitaleik, 7:2. Zóphonías hafði einmitt lagt áðurnefndan Hlyn í undanúrslitum á meðan Alan vann Orven Christian Destacamento.
Allt stefnir í spennandi keppni í stigamótunum í vetur þar sem þrír hafa skipst á að vinna fyrstu þrjú mótin.
Um næstu helgi er svo fjórða stigamótið í snóker en alls mun Billiardssamband Íslands standa að fjórum mótum í snóker og pool í nóvember.