Íþróttamaður ársins 2024 - tíu efstu

Handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson tók við verðlaunagripnum eftirsótta fyrir árið …
Handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson tók við verðlaunagripnum eftirsótta fyrir árið 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök íþróttafréttamanna kjósa í ár íþróttamann ársins í 69. skipti frá árinu 1956.

Samtökin hafa tilkynnt hvaða íþróttamenn enduðu í efstu tíu sætunum, og um leið hverjir urðu efstir í kjörinu á þjálfara ársins og kjörinu á liði ársins.

Kjörinu verður lýst laugardagskvöldið 4. janúar og þá kemur í ljós hver er íþróttamaður ársins, þjálfari ársins og lið ársins.

Sex af þeim tíu sem koma til greina í ár hafa áður verið í hópi tíu efstu í kjörinu og einn þeirra, Ómar Ingi Magnússon, hefur  tvisvar verið kjörinn íþróttamaður ársins, bæði 2021 og 2022.

Sigurvegarinn 2023, Gísli Þorgeir Kristjánsson, samherji Ómars hjá Magdeburg, er hins vegar ekki meðal tíu efstu að þessu sinni.

Anton Sveinn McKee og Glódís Perla Viggósdóttir eru á meðal tíu efstu í fimmta skipti og þau Ómar Ingi og Sveindís Jane Jónsdóttir í þriðja sinn. Sóley Margrét Jónsdóttir og Snæfríður Sól Jórunnardóttir eru á listanum í annað sinn en hin fjögur eru á honum í fyrsta skipti.

Annað árið í röð eru sex konur og fjórir karlar á listanum en fram að því höfðu konur aldrei verið fleiri en karlar í þessum hópi. Nokkrum sinnum hafa verið fimm karlar og fimm konur meðal þeirra tíu efstu.

Eftirtaldir íþróttamenn komust í hóp tíu efstu í ár og fyrir neðan má sjá hverjir eru í efstu sætunum í kjörinu á þjálfara ársins og hvaða lið gætu orðið fyrir valinu sem lið ársins:

Íþróttamaður ársins

Albert Guðmundsson, knattspyrnumaður hjá Fiorentina á Ítalíu. Hann átti frábært tímabil með Genoa 2023-24 og varð fimmti markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar. Hann var jafnframt markahæstur í íslenska landsliðinu með fjögur mörk þrátt fyrir að spila aðeins tvo landsleiki.

Albert Guðmundsson fagnar þrennunni gegn Ísrael í umspilinu um sætið …
Albert Guðmundsson fagnar þrennunni gegn Ísrael í umspilinu um sætið á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr SH. Hann varð fjórði í 200 m bringusundi á EM í 50 metra laug og komst í undanúrslit í sömu grein á Ólympíuleikunum í París.

Anton Sveinn McKee á sínum fjórðu Ólympíuleikum í París í …
Anton Sveinn McKee á sínum fjórðu Ólympíuleikum í París í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásta Kristinsdóttir, fimleikakona úr Stjörnunni. Hún var í lykilhlutverki í Evrópumeistaraliði Íslands í hópfimleikum og vann Face-off-fimleikakeppnina í Danmörku í fjórða skipti.

Ásta Kristinsdóttir átti drjúgan þátt í glæsilegum sigri kvennalandsliðsins í …
Ásta Kristinsdóttir átti drjúgan þátt í glæsilegum sigri kvennalandsliðsins í hópfimleikum á EM.

Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingakona úr Lyftingafélagi Reykjavíkur. Hún varð Evrópumeistari U23-ára í -71 kg flokki í ólympískum lyftingum, sló um leið eigið Norðurlandamet í fullorðinsflokki, og varð síðan fjórða á heimsmeistaramótinu.

Eygló Fanndal Sturludóttir er Evrópumeistari U23-ára og fjórða best í …
Eygló Fanndal Sturludóttir er Evrópumeistari U23-ára og fjórða best í heiminum í sínum þyngdarflokki. Ljósmynd/Gregor Winters

Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Bayern München í Þýskalandi. Hún varð þýskur meistari með Bayern sem fyrirliði og varð efst miðvarða í kjöri á knattspyrnukonu ársins í heiminum, Ballon d’Or, þar sem hún endaði í 22. sæti í heildina. Hún var í lykilhlutverki sem fyrirliði íslenska landsliðsins sem átti frábært ár og komst beint á EM 2025 með góðri frammistöðu í undankeppninni.

Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði Bayern München og íslenska landsliðsins …
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði Bayern München og íslenska landsliðsins og komin í hóp bestu knattspyrnukvenna heims. Ljósmynd/Alex Nicodim

Orri Steinn Óskarsson, knattspyrnumaður hjá Real Sociedad á Spáni. Hann átti mjög gott ár með FC Köbenhavn í Danmörku og var seldur til Real Sociedad fyrir metfé. Orri skoraði þrjú mörk fyrir landslið Íslands í Þjóðadeildinni í haust.

Orri Steinn Óskarsson skorar eitt þriggja marka sinna í Þjóðadeildinni …
Orri Steinn Óskarsson skorar eitt þriggja marka sinna í Þjóðadeildinni í haust. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Ómar Ingi Magnússon, handknattleiksmaður hjá Magdeburg í Þýskalandi. Hann varð þýskur meistari og bikarmeistari með Magdeburg og fékk silfurverðlaun með liðinu á HM félagsliða. Ómar varð þriðji markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar.

Ómar Ingi Magnússon hefur verið í hópi bestu handknattleiksmanna heims …
Ómar Ingi Magnússon hefur verið í hópi bestu handknattleiksmanna heims undanfarin ár. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sundkona hjá Aalborg í Danmörku. Hún endaði í fjórða sæti í 200 m skriðsundi á Evrópumótinu í 50 m laug og komst í undanúrslit í greininni á Ólympíuleikunum í París.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir náði langt á Ólympíuleikunum í París í …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir náði langt á Ólympíuleikunum í París í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingakona úr Breiðabliki. Hún varð heimsmeistari fullorðinna í +84 kg flokki í kraftlyftingum með búnaði í Njarðvík í haust þar sem hún fékk einnig gull í bekkpressu og silfur í réttstöðulyftu, og setti heimsmet 23 ára og yngri í samanlögðu.

Sóley Margrét Jónsdóttir er heimsmeistari í kraftlyftingum.
Sóley Margrét Jónsdóttir er heimsmeistari í kraftlyftingum. Ljósmynd/KRAFT

Sveindís Jane Jónsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi. Hún varð þýskur bikarmeistari með Wolfsburg og skoraði fjögur mörk í leik með liðinu í Meistaradeildinni í desember. Sveindís var í lykilhlutverki í landsliði Íslands þar sem hún skoraði fjögur mikilvæg mörk í umspili fyrir EM og í undankeppni EM þegar liðið tryggði sér sæti lokakeppninni 2025.

Sveindís Jane Jónsdóttir vann það einstaka afrek að skora fjögur …
Sveindís Jane Jónsdóttir vann það einstaka afrek að skora fjögur mörk í leik með Wolfsburg í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. AFP/Ronny Hartmann


Þjálfari ársins

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu sem komst lengst íslenskra karlaliða í Evrópukeppni með því að vinna sér sæti í umspili Sambandsdeildar.

Arnar Gunnlaugsson er kominn með Víking í umspil Sambandsdeildarinnar.
Arnar Gunnlaugsson er kominn með Víking í umspil Sambandsdeildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik sem varð Evrópumeistari í EHF-bikarnum og bikarmeistari Íslands.

Óskar Bjarni Óskarsson stýrði Val til sigurs í EHF-bikarnum.
Óskar Bjarni Óskarsson stýrði Val til sigurs í EHF-bikarnum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handknattleik sem varð ólympíumeistari í París í sumar og Evrópumeistari í Austurríki nú í desember.

Þórir Hergeirsson er sigursælasti landsliðsþjálfari heims í handknattleik og Noregur …
Þórir Hergeirsson er sigursælasti landsliðsþjálfari heims í handknattleik og Noregur varð í ár ólympíumeistari og Evrópumeistari á tveimur síðustu mótunum undir hans stjórn. Kristinn Magnússon

Lið ársins

Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu sem komst í sína bestu stöðu á heimslista, 13. sæti, og vann sér sæti í lokakeppni EM 2025 á sannfærandi hátt.

Kvennalandslið Íslands tryggði sér sæti á EM 2025 á sannfærandi …
Kvennalandslið Íslands tryggði sér sæti á EM 2025 á sannfærandi hátt og vann m.a. Þýskaland 3:0. mbl.is/Arnþór Birkisson

Landslið Íslands í hópfimleikum kvenna sem varð Evrópumeistari 2024 í Bakú í Aserbaísjan í október.

Ísland er Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna.
Ísland er Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna. Ljósmynd/FSÍ

Valur, karlalið í handbolta, sem vann EHF-bikarinn, þriðju sterkustu Evrópukeppnina hjá félagsliðum.

Valsmenn fögnuðu sigri í EHF-bikarnum eftir gríðarlega spennandi einvígi við …
Valsmenn fögnuðu sigri í EHF-bikarnum eftir gríðarlega spennandi einvígi við Olympiacos frá Grikklandi í úrslitunum. mbl.is/Jóhann Ingi

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert