Gamla ljósmyndin: Dreif í því að setja Íslandsmet

mbl.is/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðmund­ur Karls­son, fram­kvæmda­stjóri Frjálsíþrótta­sam­bands Íslands og íþrótta­fræðing­ur, á at­hygl­is­verðan fer­il að baki í ís­lensku íþrótta­lífi sem kepp­andi og þjálf­ari. 

Guðmund­ur setti Íslands­met í sleggjukasti hinn 24. júlí árið 1994 á Meist­ara­móti Íslands í frjáls­um sem fram fór á Laug­ar­dals­velli. Bætti þá eigið met og gerði það raun­ar tví­veg­is í keppn­inni. Setti met bæði í öðru og þriðja kasti og flaug sleggj­an lengst 66,28 metra. 

Íslands­metið stóð í 13 ár eða þangað til Berg­ur Ingi Pét­urs­son sló það árið 2007 en báðir kepptu þeir fyr­ir FH.  Guðmund­ur hafði fyrst eign­ast metið árið 1989. 

Guðmund­ur var ekki við eina fjöl­ina felld­ur í af­reksíþrótt­un­um og þegar hann setti metið var hann einnig þjálf­ari karlaliðs FH í hand­knatt­leik. Stefán Ei­ríks­son, nú­ver­andi út­varps­stjóri, ræddi við Guðmund fyr­ir Morg­un­blaðið að MÍ loknu og þar kem­ur fram að Guðmund­ur hafði lofað því að setja nýtt met á keppn­is­tíma­bil­inu. 

„Ég sá fram á að ég þyrfti að bæta metið í dag því við erum að byrja í hand­bolt­an­um og því hef ég eng­an tíma í ág­úst,“ er haft eft­ir Guðmund­ur í Morg­un­blaðinu 26. júlí 1994. 

Meðfylgj­andi mynd af Guðmundi er ekki tek­in í Laug­ar­daln­um held­ur í Mos­fells­bæn­um. Þar er Guðmund­ur í hringn­um að keyra upp hraðann en mynd­ina tók Ein­ar Falur Ing­ólfs­son sem oft hef­ur komið við sögu í Gömlu ljós­mynd­inni. 

Guðmund­ur var landsliðsþjálf­ari í frjáls­um frá 1988-1990 og aft­ur 2002-2004. Hann hef­ur þjálfað landslið í tveim­ur grein­um því hann hef­ur þjálfað yngri landslið í hand­knatt­leik. 

Þjálf­ara­fer­ill Guðmund­ur í hand­knatt­leikn­um reis ef til vill hæst þegar hann gerði Hauka að Íslands­meist­ur­um árið 2000 og þótti nokkuð óvænt. Karlalið fé­lags­ins hafði þá ekki orðið Íslands­meist­ari í íþrótt­inni í 57 ár.  Var þá hátt sungið Heims um ból, eins og mál­tækið seg­ir, í íþrótta­hús­inu við Strand­götu. 

Fyr­ir þá sem hafa gam­an að ætt­fræði í íþrótta­líf­inu þá lék dótt­ir Guðmund­ur 67 A-lands­leiki í hand­knatt­leik: Ragn­hild­ur Rósa Guðmunds­dótt­ir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert