Eydís Magnea Friðriksdóttir og Þórður Jökull Henrysson voru valin karatefólk ársins af Karatesambandi Íslands.
Eydís Magnea, sem keppir fyrir Karatefélag Reykjavíkur, keppir í báðum greinum karate, kata og kumite.
Á árinu vann hún til verðlauna innanlands sem erlendis. Hún vann gull á Reykjavíkurleikunum í kumite kvenna opnum flokki, gull á Íslandsmótinu í kumite í +61kg flokki og opnum flokki.
Þá varð hún einnig meistari á Bikarmóti KAÍ í kumite og Evrópumóti Smáþjóða í U21 árs flokki -84kg.
Eydís er þá fastamaður í landsliði Íslands í kata og kumite.
Þórður Jökull hefur þá einbeitt sér að keppni í kata undanfarin ár. Hann vann brons á Norðurlandsmeistaramótinu í karate í Reykjavík í apríl og brons á Evrópumóti smáþjóða í Mónakó í nóvember.
Þá vann hann silfur á Copenhagen Open meistaramótinu í kata.
Hann er einnig Íslands- og bikarmeistari í kata ásamt því að hafa unnið gull á Reykjavíkurleikunum.
Þórður er fastamaður í landsliði Íslands í kata.