Segir hafa verið eitrað fyrir sér

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP/William West

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic segir að það hafi verið eitrað fyrir sér þegar hann dvaldi á hóteli í Melbourne í Ástralíu árið 2022 áður en honum var vísað úr landi fyrir að vera ekki bólusettur fyrir kórónuveirunni, sem þá var skilyrði fyrir því að koma inn í landið.

Djokovic ætlaði þá að taka þátt á Opna ástralska meistaramótinu þar í borg. Hann er aftur mættur til Melbourne til að taka þátt í mótinu, sem hefst um helgina.

„Ég áttaði mig á því að á þessu hóteli í Melbourne var mér gefinn matur þar sem eitrað var fyrir mér. Ég uppgötvaði nokkuð þegar ég kom aftur heim til Serbíu.

Ég sagði engum þetta opinberlega en ég uppgötvaði að ég væri með mikið magn þungmálma í mér. Ég var með mikið magn af blýi og kvikasilfri,“ sagði Djokovic í samtali við tímaritið GQ.

Enski miðillinn The Guardian ráðfærði sig við nokkra sérfræðinga vegna málsins sem sammæltust um að ólíklegt hefði verið að eitrað hafi verið fyrir Djokovic þó möguleikinn væri til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert