Tony Jones, íþróttafréttamaður hjá áströlsku sjónvarpsstöðinni Channel Nine, hefur beðið serbneska tennisleikarann Novak Djokovic afsökunar á hegðun sinni í beinni útsendingu.
Jones hrópaði: „Novak, hann er ofmetinn! Hann er búinn á því. Sparkið Novak út!“ Beindi hann orðum sínum að stuðningsmönnum Djokovic er hann var við keppni á Opna ástralska meistaramótinu á föstudag.
Serbinn neitaði að fara í viðtal hjá Channel Nine, sem er rétthafi mótsins í Ástralíu, eftir að hann vann Tékkann Jiri Lehecka í fjórðu umferð á föstudag.
Djokovic sagði á fréttamannafundi eftir viðureignina að Jones hefði móðgað serbneska stuðningsmenn sína og sömuleiðis gert lítið úr sér.
Jones kvaðst í yfirlýsingu hafa beðið Djokovic afsökunar og að ummælin hafi einungis átt að vera grín og stríðni.
Djokovic mætir Spánverjanum Carlos Alcaraz í átta manna úrslitum á Opna ástralska meistaramótinu á morgun.