Strákarnir í U20 ára landsliði Íslands í íshokkí lögðu Serba að velli, 3:2, í 2. deild B á heimsmeistaramótinu í Belgrad í kvöld.
Þeir eru þá með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina en strákarnir töpuðu 2:0 fyrir Spánverjum í fyrsta leiknum.
Haukur Karvelsson kom Íslandi yfir eftir fjögurra mínútna leik en Marko Opalic jafnaði mínútu síðar, 1:1.
Birkir Einisson og Haukur komu Íslandi í 3:1 í annarri lotu og Arnar Helgi Kristjánsson átti stoðsendingarnar í bæði fyrsta og öðru markinu.
Kosta Mladenovic minnkaði muninn fyrir Serba í 3:2 í byrjun þriðju og síðustu lotu en íslenska liðið hélt fengnum hlut til leiksloka.
Þriðji leikur íslenska liðsins á mótinu er gegn Ástralíu á miðvikudaginn.