„Við verðum að stöðva þetta blóðbað“

Sara Piffer var 19 ára þegar hún lést.
Sara Piffer var 19 ára þegar hún lést. Ljósmynd/@Cyclingbottle

Ítalska hjólreiðakonan Sara Piffer lést í síðustu viku eftir að ekið var á hana á meðan hún var við æfingar á Trentino-svæðinu á Ítalíu.

Það er Cycling News sem greinir frá þessu en Sara, sem var einungis 19 ára gömul þegar hún lést, var á meðal efnilegustu hjólreiðakvenna Ítalíu.

Mikil reiði ríkir á Ítalíu innan hjólreiðaheimsins en 204 hjólreiðamenn létust á síðasta ári á Ítalíu eftir að ekið var á þá.

Of mikið af hörmulegum slysum

„Við verðum að stöðva þetta blóðbað,“ sagði fyrrverandi Ítalíumeistarinn Francesco Moser í samtali við Cycling News.

„Þetta er algjörlega óásættanlegt. Það er allt of mikið um hörmuleg slys innan hjólreiðasamfélagsins, og allt of mikið af dauðsföllum sem fylgja þeim.

Við verðum að grípa til aðgerða,“ bætti Moser við en Sara var á hjólreiðaæfingu ásamt bróður sínum þegar bíll úr gagnstæðri átt keyrði á systkinin. Ökumaður bílsins var að taka fram úr og blindaðist af sólinni með þeim afleiðingum að hann sá ekki systkinin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert