SR hafði betur gegn Fjölni, 4:2, þegar liðin mættust á Íslandsmóti kvenna í íshokkíi í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. Var um annan sigur liðsins á tímabilinu að ræða.
SR er áfram í þriðja og neðsta sæti deildarinnar en nú með sex stig. Fjölnir er áfram á toppnum með 20 stig.
Alice Gasperini kom SR í forystu eftir tæplega þriggja mínútna leik og Gunnborg Jóhannsdóttir tvöfaldaði svo forystuna þegar fyrsta lota var rúmlega hálfnuð.
Í upphafi annarrar lotu minnkaði Steinunn Sigurgeirsdóttir muninn fyrir Fjölni en örskömmu síðar skoraði Ylfa Bjarnadóttir þriðja mark SR.
Gasperini skoraði svo annað mark sitt og fjórða mark SR áður en Elín Darkoh minnkaði muninn í tvö mörk fyrir Fjölni.
Staðan þá orðin 4:2 og reyndust það lokatölur þar sem ekkert var skorað í þriðju og síðustu lotu.